ELDEY

Eldey (http://is.wikipedia.org/wiki/Eldey) undan Reykjanesi er með stærri súluvörpum í heimi, en þar verpa um 14.000 - 18.000 pör árlega. Á Íslandi verpir súlan einungis á fáeinum stöðum, fyrir utan Eldey. Í Vestmannaeyjum verpir súlan í  Súlnaskeri, Geldungi, Hellisey og Brandi. Þá er súluvarp í Skoruvík á Langanesi, Rauðanúp á Melrakkasléttu og á eyjunni Skrúði í Fáskrúðsfirði. Talið er að varpstofninn við Ísland sé rúm 30 þúsund pör.

Um sextíu prósent heildarstofnsins verpir á Bretlandseyjum og Írlandi og stærstu súluvörp í heimi eru á St. Kilda, eyjaklasa vestur af Skotlandi og Bonaventure-eyju við Kanada en um 60.000 pör verpa á hvorum stað. Næst í röðinni er Bass Rock við Skotland sem súlan dregur sitt latneska heiti af. 

Eldey er um 77 m hár klettadrangur um 15 km suðvestan við Reykjanes. Eldey er mynduð úr móbergi og er 0,03 km2. Hún er innsta skerið í skerjaklasa miklum sem stendur á einni grynningu og nær 45 sjómílur frá landi. Kallast hann Fuglasker eða Eldeyjar. Eitt þessara skerja var Geirfuglasker þar sem voru síðustu höfuðstöðvar geirfuglsins en það sökk að mestu í eldsumbrotum 1830.

Í munni brezkra sjómanna hét Eldey „Count Rock” og „Flour Sack”. Eldeyjarboði er blindsker u.þ.b. 57 km suðvestan Reykjaness. Stundum eru brotin þar tugir metra á hæð og fiskimið eru góð þar í kring. Líklega er þessi boði leifarnar af Nýey. Brezkir nefndu boðann „Blinders”. Á Eldeyjarbanka voru fyrrum góð fiskimið, m.a. síld og humar. Aðalsiglingaleið skipa liggur milli meginlandsins og Eldeyjar.

Súlubyggðin í Eldey var fyrst metin 1939 af Vevers og Venables en 1949 af Þorsteini Einarssyni o.fl. Þeir töldu fuglana af báti en aðrir klifruðu upp á eyna til að aðstoða við talninguna. Árið 1953 var fyrst talið af stækkuðum ljósmyndum og hefur sú aðferð verið notuð nokkrum sinnum síðan. Beinar talningar og talningar af myndum gefa ekki alveg sambærilegar niðurstöður. Huxley, Fisher, Vevers og Þorsteinn Einarsson fengu 15178 hreiður 1949 og töldu Eldey þá vera stærstu súlubyggð í heimi Áreiðanlegustu tölurnar síðustu áratugi eru að finna í tveimur greinum fuglafræðingsins Arnþórs Garðarssonar í tímaritinu Bliki. Þar sést að fjöldi súluhreiðra í Eldey hefur haldist svipaður undanfarna áratugi; 16888 (1953), 18200 (1961), 15546 (1977), 14194 (1983), 14531 (1985), 16030 (1999). Nýlega birtist grein um talningar í Blika (2008) þar sem fjöldi para er áætlaður um 15 þúsund pör. Talningar sýna að súlustofninn við Ísland hefur verið í vexti síðustu öld, lík og annars staðar vð Norður Atlantshafið.

Ekki var vitað til þess að neinn hafi klifið Eldey þegar þrír Vestmanneyingar klifu hana 30. maí 1894. Í þeim hóp var meðal annars Hjalti Jónsson, öðru nafni Eldeyjar-Hjalti. Þremenningarnir töldu sig hafa séð festibolta á nokkrum stöðum í berginu í Eldey, sem gaf til kynna að þeirra för væri ekki sú fyrsta. Enda væri óraunhæft að ætla að svo hefði verið því eyjan hefur um aldir verið talin mikil "matarkista" auk þess sem ætla megi að hún hafi löngum verið ofurhugum áskorun. Vitað er að árlega var farið í Eldey til fugla eftir 1894 þar til hún var friðuð.

dacoda.is